17. mars 2020

Skólahald næstu daga

Kæru foreldrar og forráðamenn.

Við höfum nú skipulagt skólastarfið næstu daga, eins og fyrirmæli yfirvalda segja til um. Allir nemendur Laugalandsskóla geta mætt og njóta kennslu frá kl 08.30 til kl 13.25, þegar skólahaldi lýkur. Þetta skipulag verður frá og með morgundeginum.

Gengið er út frá því, samkvæmt tilmælum stjórnvalda, að í skólastofum og skólabílum sé nemendum raðað með eins miklu millibili og unnt er og aldrei séu fleiri en 20 saman í hópi.

Stundaskrá verður óbreytt en íþróttakennsla verður ekki í íþróttasalnum svo íþróttaföt eru óþörf. Miðað við aðstæður verða ekki frímínútur þar sem hópar blandast, og hópar blandast ekki í matsal. Reiknað er með útivist á hverjum degi, með kennara. Mikil áhersla er á sótthreinsun og sóttvarnir, m.a. með sótthreinsun handa, lokun vatnsbrunna ofl. (Börn eru hvött til að hafa með sér vatnsbrúsa með vatni í og nesti en  notkun samlokugrilla verða takmörkuð).

Miðað er við að hópar blandist ekki í skólanum. Hóparnir verða 5:

1., 2 og 3. bekkur, 4-5. bekkur, 6. bekkur, 7.- 8. bekkur og 9.-10. bekkur.

Umsjónarkennarar fara yfir allar breytingar með nemendum á degi hverjum.

Skólabílar ganga með sama hætti og áður. Sömu börn eru í sömu bílum. Ekki verður orðið við óskum um að börn fari með öðrum skólabíl úr skóla.

Í skólabílum er raðað í sæti. Þannig sitji aðeins saman systkini, eða nemendur úr sama hópi. Hjálp foreldra við skólaakstur er vel þegin. Margir foreldrar eiga leið hjá, og/eða vilja aka sínum börnum sjálfir til og frá skóla.

Stóra upplestrarkeppni 7. bekkjar hefur verið frestað sem og Skólahreysti. Við bíðum með að taka ákvörðun um hvort og þá hvenær árshátíð skólans verður haldin.

Til að uppfylla öll skilyrði um þrif og öryggi, er ekki skólastarf eftir kl 13.25. Hins vegar höfum við það rými í skólanum og fjölda nemenda, að við þurfum ekki að takmarka fjölda nemenda hvern dag.

Fyrirkomulag þetta verður í sífelldri endurskoðun, eftir aðstæðum.

Þeir sem kjósa að hafa börnin sín heima á meðan þetta ástand varir eru vinsamlegast beðnir um tilkynna það til skólans og umsjónarkennari mun síðan vera í sambandi upp á áframhaldandi nám.

Hafið þið nánari spurningar vegna þessa, hafið þá vinsamlegast samband við umsjónarkennara eða skólastjórnendur.

Virðingarfyllst,

Stjórnendur og starfsfólk Laugalandsskóla.

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi
SKÓLAREGLUR