4. maí 2020

Skólahald til 4. maí

Vonandi hafa allir notið páskahátíðarinnar og eru tilbúnir í framhaldið.

Skólastarfið fyrir páska gekk mjög vel hjá okkur. Við erum svo lánsöm að hafa mikið rými hér í skólahúsnæðinu, miðað við nemendafjölda.

Allir nemendur Laugalandsskóla geta mætt, alla daga. Við þurfum ekki að skerða kennslu í kjarnagreinum. Við kennum til kl. 13:25 alla daga og höldum því áfram til 4. maí. Kennsla í sumum valgreinum og dagskóli falla vissulega niður. En það er af öryggisástæðum, svo þrífa megi vel og örugglega alla daga.

Nemendur og starfsfólk eru orðin þaulvön aðstæðum. Allir passa saman upp á hópastærð og að blandast hvergi öðrum hópum á leið sinni, hvort sem farið er í mat eða frímínútur. Umferð um skólann er eftir ákveðnu skipulagi og í skólastofu og matsal hefur hver sitt sæti sem ekki breytist. Sama á við um skólabíla. En það hefur vissulega hjálpað við þessar sérstöku aðstæður og létt á skólabílunum, að sumir foreldrar hafa ekið sínum börnum sjálfir í skólann. Fyrir það er vert að þakka.

Nú styttist óðum í skólalok. Kennarar fara að leggja fyrir verkefni og kannanir, sérstaklega í elstu bekkjunum. Lokaspretturinn í að undirbúa nemendur fyrir vorprófin er hafinn. Þess vegna er mikilvægt, að þeir sem mögulega kjósa að kenna börnum sínum heima, vinni með okkur í að koma á milli gögnum.

Vinsamlegast sendið okkur línu, þau ykkar sem hafið ekki tilkynnt um leyfi eftir páska og látið skólabílstjórana vita líka.

Starfsfólk Laugalandsskóla hefur lagst kröftugt á árar. Samstaða og samhjálp eru kjörorð hvers dags. Framlag allra er til mikillar fyrirmyndar og fyrir það getum við öll verið þakklát.

Vonandi sjáum við sem flesta á morgun.

Stjórnendur Laugalandsskóla.

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi
SKÓLAREGLUR