3. júní 2021

Skólaslit Laugalandsskóla 2021

Mánudaginn 31. maí voru haldin skólaslit í Laugalandsskóla. Þau voru með aðeins öðruvísi sniði en vanalega þar sem enn gilda ákveðnar sóttvarnarreglur.  

Nemendur í 1. – 6. bekk hittu umsjónarkennara í sínum heimastofum og fengu afhendar einkunnarmöppur. Þar áttu þau gæðastund með kennara og foreldrum.  

Útskrift nemenda í 7. – 10. fór fram í samkomusal. Skólaslitin voru sett með hljóðfæraleik og söng sem Hulda Guðbjörg Hannesdóttir flutti. Sigurjón skólastjóri hélt svo ræðu þar sem hann rifjaði upp núliðið skólaár. Þessi skólaslit mörkuðu tímamót þar sem þetta verður hans síðasta skólaár. Sigurjón þakkaði starfsmönnum, foreldrum og nemendum sem hann hefur kynnst í gegnum árin fyrir ánægjulegar stundir í Laugalandsskóla.  

Að ræðu hans lokinni flutti Þorbjörg Skarphéðinsdóttir, nemendaráðsformaður Laugalandsskóla, stutt ávarp þar sem hún dró saman skólagöngu 10. bekkjar og rifjaði upp skemmtileg atvik og viðburði á skólagöngunni. Eftir ræðu Þorbjargar var komið að einkunnaskilum. Hver bekkur fór upp á svið þar sem umsjónarkennari úthlutaði einkunnamöppum. Þær Hulda Guðbjörg og Anna Ísey fengu svo viðurkenningu frá Ásahreppi fyrir góða frammistöðu í Stóru upplestrarkeppninni. Í útskriftarhópnum fékk Sveinn Skúli Jónsson viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í dönsku og Árbjörg Sunna Markúsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir besta námsárangur bekkjarins. Í lokin fengu svo allir útskriftarnemendur rós. 

Í tilefni starfsloka Sigurjóns voru haldin mörg skemmtileg erindi frá hinum ýmsu aðilum. Arndís Fannberg gaf Sigurjóni kryddplöntur fyrir hönd kvenfélagsins Einingar. Jóhanna Hlöðversdóttir, formaður foreldrafélags Laugalandsskóla, flutti stutta og hugljúfa ræðu um Sigurjón og veitti honum blómvönd. Fulltrúar frá Odda bs., Ágúst Sigurðsson og Valtýr Valtýsson, gáfu honum blómvönd og bækur og Ágúst hélt einnig ræðu þar sem hann þakkaði Sigurjóni fyrir gott samstarf. 

Að ræðuhöldum loknum var skólanum formlega slitið og nemendur héldu í sumarfrí.  

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR