22. febrúar, 2022

Þorraþrællinn 2022

Þorrablót var haldið hér hjá okkur í Laugalandsskóla síðastliðinn föstudag með pompi og prakt. Hlaðborðið var hlaðið þorramat að hætti Helgu Fjólu og stelpunum í eldhúsinu og mátti finna þar smakk af því allra helsta. Það var þjóðlegt um að litast, krakkar og starfsfólk voru klædd í ullarpeysur og lögðu krakkarnir í 5. og 6. bekk á borð og skreyttu salinn.

Eins og venja hefur verið síðastliðin ár fá allir krakkar 3 vísur til að botna í anda þorrans og veittar eru viðurkenningar fyrir besta botninn í 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk en einnig fyrir fyndnasta botninn. Einn hlýtur svo Þorraþrælinn fyrir best orta botninn af öllum. Virkilega gaman að sjá hvað þetta lá vel fyrir mörgum og margir skemmtilegir botnar urðu til. En hér fyrir neðan má sjá þá botna sem stóðu upp úr þetta árið.

_

Þorrarællinn 2022

Ferlegur er fnykur súr

Fýlan vitin fyllir

Dríf ég mig þá í drykkjutúr

Dansgólfið ég trylli

Höf. Herdís Björg Jóhannsdóttir 10. bekk

_

Fyndnasti botninn

Lundabagg‘og langreiðskepp

Ljúft ég niður renni

inn á klósettið ég skrepp

og endaþarminn brenni

Höf. Elísabet Líf Sigvaldadóttir 7. bekk

_

1.-4. bekkur

Úti allt í frost og snjó

Frostrós vex á glugga

Grílukerti stutt og mjó

Og úti sé ég skugga.

Höf. Helgi Hrafn Sigvaldason 3. bekk

_

5.-7. bekkur

Nú Þorrinn genginn er í garð

gott fæ ég að eta

vonandi ekki kindasparð

ekki vil ég freta.

Höf. Örvar Elí Pierreson 6. bekk

_

8. -9. bekkur

Þorrinn senn á enda er

Eftir kemur Góa

Auga úr hrúti úr ég sker

Ei ber því að sóa

Höf. Hulda Guðbjörg Hannesdóttir 8.bekk

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR