16. nóvember 2023

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar sem er 16. nóvember. Dagurinn er helgaður íslenskri málrækt og eru ýmis verkefni unnin í skólunum okkar tengd deginum.

Hjónin Gunnar Helgason og Björk Jakobsdóttir komu til okkar í upphafi dags og lásu upp úr ný útkomum bókum sínum. Hér má sjá kynningu á bók Gunnars og hér má sjá bók Bjarkar, miðað við sýnan áhuga eru eflaust margir krakkar með þessar bækur á jólagjafaóskalista.

Eftir hádegi steig 7. bekkur á svið og flutti ljóð Jóhannesar úr Kötlum Krummasaga ásamt því að sýna myndir sem þau teiknuðu til að túlka ljóðið. Flutningur þessi markar einnig upphafið af undirbúningi fyrir upplestrarkeppnina sem haldin verður í vor.
10. bekkur las og söng ljóðið Maístjörnuna, þau fengu góða aðstoð frá Sóldísi í 8. bekk sem söng eins og engill.

1.-5. bekkur endaði dagskránna okkar með því að syngja lagið á íslensku má alltaf finna svar.

Við óskum ykkur til hamingju með daginn og minnum um leið á hlutverk ykkar sem fyrirmyndir í notkun íslenskunnar, bæði í töluðu máli en ekki síður í tengslum við lestur. Böðum börnin okkar í fallegum, skrýtnum, áhugaverðum orðum. Lesum fyrir þau bækur sem þið kunnuð vel að meta þegar þið voruð ung, spyrjum þau út í textann, njótið samverunnar án snjalltækja sem vilja trufla nándina og tengslin okkar.

Hér er góð lesning sem er ætluð til stuðnings við foreldra

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi
SKÓLAREGLUR