31. janúar 2024

Fréttir úr 1. bekk

Í 1. bekk starfa þetta árið 12 nemendur og er Ragna Magnúsdóttir umsjónarkennari þeirra og Valborg Gestdóttir er stuðningsfulltrúi, báðar eru miklir reynsluboltar og kunna að nálgast nám barnanna á spennandi og skemmtilegan hátt. Það er búið að vera mikið um að vera hjá bekknum í janúar þar sem tveir viðburðir, alveg sérstaklega fjörugir og skemmtilegir, fóru fram. Fyrst ber að segja frá 100 daga hátíðinni sem haldið var upp á miðvikudaginn 24. janúar en þann dag höfðu börnin í 1.bekk verið heila 100 daga í grunnskóla og því 100 dögum klárari en í haust 🙂.

Nemendur 1.bekkjar hafa í vetur samviskusamlega talið dagana sem þau hafa mætt í skólann og er það hluti af því að auka talnaskilning barnanna. Til þess að halda upp á þennan merka viðburð máttu krakkarnir taka með sér leikfang og sparinesti. Dagurinn var svo undirlagður í hinum ýmsu 100 daga verkefnum eins og að búa sér til ,,nammi" hálsmen úr marglitu seríósi, búa sér til 100 daga kórónu, telja hversu mörg hopp/magaæfingar/armbeygjur o.fl. fjölbreyttar íþróttaæfingar þau náðu að framkvæma á 100sekúndum og margt fleira. Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir frá deginum

Þá hefur sú hefð þróast síðustu ár hjá henni Rögnu að halda alveg sérstaklega upp á þann dag sem lokið er við innlögn á öllum íslensku stöfunum. Almennt eru lagðir inn 1-2 stafir á viku og er með innlögn átt við að börnin fá fjölbreytta kennslu og fræðslu um hvern staf, útlit og hljóð hans. Þegar þessari yfirferð er lokið er haldið upp á daginn með því að klæða sig upp eins og hverjum og einum lystir hvort sem er í ofurhetjubúning, kjól eða hverju því sem þau vilja. Því næst taka sér allir eitthvað hljóðfæri í hönd, þau spila háværa tónlist úr ferðahátalara og fara í skrúðgöngu um alla skólabygginguna. Gaman er að segja frá því að þau fá mjög jákvæðar viðtökur hjá öðrum nemendum skólans þar sem eldri nemendur standa úr sætum og klappa fyrir þessum áfanga í lífi 1.bekkinga sem ganga stolt um og berja á og hrista hljóðfæri sín. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem sýnir brot frá deginum.

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi
SKÓLAREGLUR