31. janúar 2024

Þorri

Þorrinn er genginn í garð eins og veðurspár bera vitni um. Í dag 31.janúar ákváðum við að senda nemendur heim þar sem spáin var ekki glæsileg.
Föstudaginn 26. janúar á sjálfan Bóndadaginn var hins vegar ágætis veður og þann dag héldum við Þorrablót í Laugalandsskóla. Það er rík hefð í skólanum fyrir vísubotnagerð í tengslum við Þorrann þar sem nemendur botna fyrriparta sem samdir eru af Bæring Jón. Það er gaman að sjá hversu lunknir nemendur okkar eru við þetta og hér má sjá afrakstur vinnunnar, bestu botnana í ár.


Á elsta stigi var það Sveinn Bjarki Markússon 10. bekk sem orti:
Þrautin þyngri reynist mér
þorrabotn að semja
Engin hugmynd kemur hér
hausinn ég vil lemja

Guðný Lilja Pálmadóttir í 7. bekk á þennan skemmtilega botn
Fyrri parta finna skal
fjarska er það snúið
Krakkar hafa ekkert val
þar til þetta´er búið

Guðný Lilja var fjarri góðu gammi þennan dag og því tók Guðbjörg Viðarsdóttir umsjónarkennari hennar á móti verðlaunum

Það var svo Ólafur Kolbeinn Eiríksson í 4. bekk sem fékk viðurkenningu fyrir besta botninn á yngsta stigi.

Í skólanum ég skrifa á blað
skelfing er það gaman
Leik mér eitthvað sitt og hvað
svo gerum eitthvað saman

Dagur Sigurðsson í 10. bekk hlaut viðurkenningu fyrir fyndnasta botninn sem hljómar svona:

Þrautin þyngri reynist mér
þorrabotn að semja
Aldrei hef ég unnið hér
hrossin skárr´að temja

Þorraþrælinn sjálfan og farandbikarinn hlaut Lísbeth Viðja sem orti þennan stórgóða botn
Á Fróni tróna fjöllin blá
fögur þykir hlíðin
Um vetur verða hvít og grá
verst er sú árstíðin

Starfsfólk Laugalandsskóla hefur líka tekið þátt og hlýtur tilnefninguna Hákarlinn og samnefndan verðlaunagrip.
Þorramatinn í mig treð
mikið er hann góður
Fyrir suma er það streð
segja´ann hundafóður

Það er ljóst að í Laugalandsskóla má finna mikla hagyrðinga.


Nemendur í 6. bekk fluttu vel gerða og fróðlega kynningu á þorramat og uppruna hans. Það var skemmtileg viðbót við dagskrá blótsins sem vonandi er komin til að vera.

Sama má segja um skemmtilegt verkefni sem nemendur í 2.-3. bekk settu upp og sýndi íslenska þjóðhætti.
Auðvitað var svo sungið undir borðhaldi eins og á öllum góðum þorrablótum og það voru Dagur og Grétar í 10. bekk sem leiddu sönginn.

Sveitastjórinn okkar mætti til veislu og sögur herma að hann hafi sungið manna hæðst. Hér að neðan er örlítið tóndæmi.

https://laugalandsskoli.is/wp-content/uploads/2024/01/20240126_121330.mp4

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi
SKÓLAREGLUR