13. febrúar, 2024

Fréttir úr 2. – 3. bekk

Það er margt skemmtilegt að frétta úr 2.-3. bekk og er ýmislegt brallað. Þegar nemendur eru spurðir um hverju sem þau vilja helst segja frá er nýja námsefnið í stærðfræði svarið hjá langflestum. Það hefur svo sannarlega vakið lukku en þeim finnst það virkilega skemmtilegt. Núna í janúar byrjuðum við í námsefni sem heitir Evolytes en það er íslenskt hugvit sem kemur með skemmtilegar nýjungar inn í stærðfræðinámið. Evolytes námskerfið sameinar námsleik, námsbók og upplýsingakerfi með það að markmiði að bæta námsárangur barna. Evolytes námsleikurinn er hágæða tölvuleikur sem gerir stærðfræðinámið skemmtilegt og fjölbreytt. Þar safna börnin fallegum dýrum, hugsa um þau og lenda í skemmtilegum ævintýrum með þeim. Þar þurfa þau í sameiningu að berjast við önnur dýr, finna fjársóð og leysa allskonar verkefni með því að svara stærðfræðispurningum. Námsbækurnar tengjast svo beint inn í leikinn með QR-kóða en þau fá verðlaun fyrir að klára hvern kafla og taka einnig kaflapróf í leiknum. Í námskerfinu er svo ítarlegt upplýsingakerfi sem kennari hefur aðgang að og getur þar séð árangur barnsins. Þannig er hægt að sjá svör við öllum dæmum sem barnið hefur svarað og því auðvelt að sjá styrkleika og veikleika barnsins á hverjum tíma.
Það er ánægjulegt að finna námsefni sem er svo skemmtilegt að nemendur biðja um að fara í það á hverjum degi. Það hljóta líka að vera góð meðmæli þegar nemendur velja námsleik fram yfir allt annað þegar þeir fá frjálsan tíma í I-pad.

Í janúar voru krakkarnir að vinna að ótrúlega skemmtilegu verkefni með Hörpu um burstabæi. Þá bjuggu börnin til sína eigin burstabæi í litlum hópum og fólkið sem þar býr. Þau gáfu bænum sínum nafn og skrifuðu svo stutta lýsingu á bænum sínum og þeim sem þar búa. Á þorrablótinu okkar hér í skólanum sem var haldið á bóndadaginn var svo sett á laggirnar stórglæsileg sýning þar sem afraksturinn var til sýnis. Þá stilltu þau bæjunum sínum upp í matsal skólans og fengu því allir nemendur og starfsmenn að skoða. Virkilega flott sýning hjá þeim og skemmtilegt og vel unnið verkefni!

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR