21. febrúar síðastliðinn lögðu nemendur í 9.-10.bekk land undir fót. Ferðinni var heitið í höfuborgina, nánar tiltekið á Skólaþing. Undanfarnar vikur hefur 10.bekkurinn verið að læra um íslenska stjórnkerfið og var þessi ferð ákveðin lokahnykkur á þeirri fræðslu. Ferðin hófst með heimsókn í Alþingishúsið þar sem nemendur fengu kynningu á húsakynnum og þingstörfum. Það var eftir því tekið hve vel þau voru að sér um málefni þingsins og svo slóu þau heldur betur um sig þegar karlakór Laugalandsskóla tók Rósina í Kringlunni – en þar fer allajafna fram móttaka tignra gesta eða þjóðhöfðingja. Taldi starfsmaður þingsins að aldrei hafi annar eins kór sungið þar áður.
Af Alþingi lá leiðin svo hinumegin við Austurvöllinn þar sem húsakynni Skólaþings eru.
Á Skólaþingi gafst nemendum tækifæri til að setja sig í spor þingmanna með því að leiða fram ákveðin málefni sem fyrir þau voru lögð til lykta á þingflokksfundum, nefndarfundum og þingfundum. Hlustað er á rök sérfræðinga, sem og skoðanir almennra borgara á þeim málum sem fyrir þinginu liggja. Hugmyndin með Skólaþingi er að nemendur fái innsýn í sambandið milli atburða í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og starfa Alþingis – sem og að sýna áhrif al,mennings, sérfræðinga, fjölmiðla og hagsmunaaðila á löggjafarstarfið. Nemendur eiga síðan að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að hlusta á og meta rök og álit annarra og skiptast á skoðunum.
Stóðu þau sig með stakri prýði, voru áhugasöm og dugleg að setja sig í hlutverk og fylgja málunum sínum eftir. Svo kappsöm voru þau að ekki tókst að klára öll málin þar sem tíminn var orðin of naumur. Ákveðið hafði verið að hópurinn myndi vera sérlega menningarlegur og fá sér eina með öllu á Bæjarins bestu eftir þing en þá dundi ólukkan yfir. Vegna bilunar komumst við ekki út úr byggingunni og sátum því föst. Tíminn, sem þegar var naumur, rann þá út og þegar við loksins komumst með krókaleiðum út urðum við að fara beint upp í rútu og bruna heim. Þrátt fyrir óheppileg endalok var ferðin gríðarlega skemmtileg og fræðandi í alla staði.