Fimmtudaginn 22. febrúar fóru nemendur í 4. - 10. bekk í Bláfjöll. Þau fengu afspyrnu gott veður og skíðafæri var frábært. Nemendur voru ýmist á skíðum eða snjóbrettum og margir renndu sér allan tímann. Nemendur 4. - 8. bekkjar komu aftur heim á Laugaland um sexleytið og voru þau þreytt en sæl. Sumir voru með harðsperrur í skólanum daginn eftir, aðrir voru það líklega líka en viðurkenndu það ekki.
Nemendur í 9. - 10. gistu í Bláfjöllum um kvöldið ásamt Steinunni, umsjónarkennara 9. bekkjar, og Dagnýju Rós, stuðningsfulltrúa. Það var heilmikið fjör hjá þeim þar sem þau elduðu sér saman kvöldmat, spiluðu og spjölluðu. Orkan hafði klárast á fimmtudeginum og því var lítið skíðað á föstudeginum, bara haft það náðugt fram að heimför.