Skólastarf seinustu viku hefur einkennst af alls kyns skemmtilegum námstækifærum. Uppbrotsdagar eru jafn mikilvægir og jafnvel mikilvægari en hefðbundnir skóladagar fyrir nemendur þar sem reynir á samstarf nemanda og kennara. Gleðin sem myndast skilar sér í góðum skólabrag og margir telja þetta skemmtilegustu daga ársins.
Það var eitt og annað sem við tókum okkur fyrir hendur þessa viku. Eitt áttu þeir þó sameiginlegt... það var mikið fjör.
Á mánudaginn var Umhverfisfjör, búnir voru til vinabekkir sem sem unnu að verkefnum sem umsjónarkennarar þeirra höfðu skipulagt.
4. bekkur vann með 8.-9. bekk að því að grisja tré og búa til stíga í Úlfaskógi. Skóræktin gaf okkur einhver ósköp af plöntum sem ætlunin er að setja niður í nágrenni skólanns.
2.-3. bekkur vann með 6.-7. bekk að skemmtilegum tilraunum sem fólst í því að útbúa spýtubáta sem voru svo látnir sigla niður lækinn okkar.
1. bekkur vann með 5. bekk að því að týna saman sprek og rusl ásamt því að snyrta í kringum skólann okkar
Nú svo má segja frá því að í portinu okkar á bak við skólann er nú verið að byggja upp skemmtilegt svæði þar sem finna má meðal annars finna borðtennisborð og þythokkýborð sem ætlað er til útinotkunar. Líta má á þetta sem fyrsta skrefið í átt að uppbyggingu á skólalóðinni okkar.
Á þriðjudegi var svo kallað Hreyfifjör þar sem við skiptum bekkjum upp eftir því hvernig stigin líta út næsta vetur. Þar voru í boði að fara á þrjár stöðvar yfir daginn. Meðal annars fór fram sundkeppni, farið var í kubb og frisbý golf, krakkarnir bökuðu brauð á grilli og fóru í útileiki eins og að Verpa eggjum.
Í hádeginu var boðið upp á grillaðar pylsur. Við vorum afar heppin með veður þessa daga og allir nutu veðurblíðunnar
Á miðvikudeginum var svo dagur sem fékk nafnið Stöðvafjör, þá var nemendum skipt í aldursblandaða hópa sem skiptust á að fara á jafn margar stöðvar. Þar voru fjölbreytt verkefni og þrautir sem nemendur þurftu að leysa. Í boði voru stig fyrir leyst verkefni og stig voru einnig veitt fyrir háttvísi þar sem horft var eftir samvinnu, samskiptum og jákvæðum leiðtoga hæfileikum.
Fimmtudagurinn fékk nafnið umsjónarfjör en þar enduðu umsjónarkennarar veturinn með sínum nemendum í ýmsum óvanalegum verkefnum.