Á starfsdegi, 18. nóvember, kom fræðsluteymi 78 samtakanna og hélt erindi fyrir starfsfólk leik- og grunnskólans. Fjallað var um ýmis hugtök tengd hinseginleikanum hvað varðar kynvitund, kynhneigð og kyntjáningu. Einnig var rætt um hvernig er hægt að viðhalda hinseginvænu kennsluumhverfi og hvernig er hægt að sýna börnum sem telja sig tilheyra hinseginleikanum stuðning. Starfsfólk fékk góða fræðslu um allt sem tengist hinseginleikanum og fékk einnig tækifæri til að spyrja nánar út í efnið.
Eitt það helsta sem hægt er að taka út úr fyrirlestrinum er það að gott er að venja sig á að gera ekki ráð fyrir allir skilgreini sig út frá kynjatvíhyggju eða séu gagnkynhneigðir.
Samtökin ’78 bjóða upp á fræðslu og ráðgjöf fyrir alla sem hafa áhuga á að nýta sér það, og hvetjum við ykkur að hafa samband við þau ef einhverjar vangaveltur eru. Á heimasíðu þeirra má nálgast ýmsan fróðleik, bóka ráðgjöf, styrkja starfið og margt fleira.
Hinseginleikinn hefur gefið tækifæri til ýmissa nýyrðasmíða, og þar sem dagur íslenskrar tungu er nýliðinn viljum við nýta tækifærið og sýna hvernig hvorugkyns nafnorðið kvár (ókyngreint nafnorð um fullvaxta manneskju) og hvorugkyns fornafnið hán eru fallbeygð.