10. janúar, 2025

Fyrsta frétt ársins

Gleðilegt nýtt ár kæru nemendur og aðstandendur!

Nú er árið 2025 komið vel af stað og flestir búnir að koma sér aftur í rútínu hversdagsleikans. Skólastarfið heldur sínum vanagangi og nú þegar hefur ýmislegt verið brallað í ýmsum bekkjum. Nokkrir bekkir hafa nýtt góða vetrarveðrið til að fara í sleðaferð í Olgeirsbrekku og verða settar inn myndir af þeim ferðum á næstu dögum.

Það helsta sem er á döfinni er þorrablót Laugalandsskóla sem haldið er á bóndadegi, 24. janúar. Þá er hefð fyrir því að mæta í lopapeysum og að sjálfsögðu verður framreiddur háíslenskur þorramatur. Í næstu viku byrja nemendur að botna vísur og á þorrablótinu sjálfu verður tilkynnt hverjir hljóta verðlaun fyrir bestu botnana.

Við látum Þorraþræl ársins 2024, saminn af Lisbeth Viðju Hjartardóttur, fylgja með fréttinni.

Á Fróni tróna fjöllin blá
fögur þykir hlíðin
Um vetur verða hvít og grá
verst er sú árstíðin

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR