Það er mikilvægt að huga að sjálfbærni, endurvinnslu og fullnýtingu hráefna. Björg Kristín, sem hefur kennt textílmennt í Laugalandsskóla í fjölmörg ár, tók þetta alla leið en hún hefur ekki keypt inn neitt nýtt efni fyrir textílkennslu í ár. Þess í stað hefur hún einungis endurnýtt efni sem til er eða fengið efni frá nemendum og starfsfólki sem það er hætt að nota. Árangurinn er heldur betur flottur, gardínur fá nýtt líf sem svuntur, hettupeysur nýtast áfram sem pottaleppar og svo mætti lengi telja. Hér eru nokkrar myndir úr textílmenntinni þar sem nemendur hafa saumað, prjónað eða unnið hin glæsilegustu listaverk undir öruggri handleiðslu Bjargar.