Markmið Evrópska tungumáladagsins, sem haldinn er 26. september um alla Evrópu, er að vekja athygli á ríkulegum tungumála- og menningarlegum fjölbreytileika álfunnar og hvetja til að bæta úrval tungumála sem fólk lærir á lífsleiðinni. Aukin tungumálakunnátta veitir okkur betri innsýn inn í ólíka menningarheima og bætir samfélagslega færni okkar. Evrópski tungumáladagurinn er tækifæri til að fagna öllum tungumálum Evrópu, bæði stórum og smáum.
Í Laugalandsskóla vann 4.-6. bekkur skemmtilegt verkefni í tilefni dagsins undir leiðsögn Guðbjargar og Klöru. Þar kynntu nemendur sér tungumál nokkurra Evrópuþjóða. Nemendur unnu í hópum og fékk hver hópur eina þjóð til að vinna með. Þau teiknuðu þjóðarfána, þýddu texta yfir á tungumálið og lásu hann upp á myndbandi. Hér má sjá myndir af þeirri vinnu sem og afrakstrinum.