
Harpa Rún Kristjánsdóttir kom í dag og kynnti fyrir 1.-5. bekk nýju barnabókina sem hún var að gefa út, Hver á mig?
Þetta var dásamleg stund sem við áttum saman og fróðleg. Hún sagði okkur frá því hvernig rithöfundar starfa og kynnti fyrir okkur allt ferlið við að gefa út barnabók, allt frá því hugmynd verður til og þar til hún situr með nemendum og sýnir þeim bókina. Hún fór í gegnum bókina með okkur og vakti sagan mikinn áhuga og hún hafði varla undan við að svara spurningum nemenda.
Það er mikill spenningur hjá nemendum að lesa þessa bók spjaldanna á milli og mælum við hiklaust með að næla sér í eintak af þessari yndislegu bók. Þessi bók er tilvalin til að efla orðaforða enda notar Harpa Rún fallegan íslenskan orðaforða án allrar einföldunar. Lestur bókarinnar býður því upp á góðar samverustundir með skemmtilegum umræðum.


