25. nóvember, 2025

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn 16. nóvember ár hvert, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Dagurinn féll á sunnudag þetta árið en það kom ekki í veg fyrir að unnin voru hin ýmsu verkefni tengd deginum.

Nemendur 1. bekkjar unnu með kvæðið Í Hlíðarendakoti eftir hann Þorstein Erlingsson. Þau teiknuðu mynd af skáldinu og bænum Hlíðarendakoti. Þau teiknuðu líka myndir af því sem gerist í kvæðinu. Síðan fóru þau og fluttu kvæðið fyrir leikskólann.

í 2.-3. bekk unnu nemendur með ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og Guðmund Guðmundsson skólaskáld sem ættaður var frá Hrólfsstaðahelli.

Á föstudeginum 14. nóvember unnu nemendur 4. bekkjar verkefni í tengslum við dag íslenskrar tungu. Þá fóru þeir vel yfir markmið með degi íslenskrar tungu sem er m.a. að gleðjast og fagna sögu íslenskunnar, samtíð hennar og framtíð. Nemendur gerðu veggspjöld sem þeim fannst ríma vel við þetta markmið sem voru fjölbreytt og skemmtileg. 

Nemendur 5. bekkjar unnu einnig mjög flott verkefni í tengslum við dag íslenskrar tungu þar sem þeir fóru vel yfir ljóðið Ég bið að heilsa eftir Jónas Hallgrímsson. Síðan settu nemendur sig í spor Jónasar og ímynduðu sér aðdragandann að því að hann samdi þetta ljóð sem segir okkur fallega sögu. Þeir skrifuðu svo sögu um þennan aðdraganda sem þau sáu fyrir sér.

Síðan unnu krakkarnir í  4.-5. og 6. bekk saman verkefni tengt þessum degi. Unnið var í aldursblönduðum hópum þar sem hver hópur valdi sér einn íslenskan textahöfund, aflaði sér ýmissa upplýsinga um hann og setti á plaköt. Þá valdi hópurinn sér einnig einn texta (lag) og vann með þann texta.  Hópavinnan var lífleg og gekk vel. Verkefnin prýða nú gang miðstigsins.

Hjá 7. og 8. bekk var lögð áhersla á að læra og flytja ljóðið Ísland eftir Jónas Hallgrímsson. Erindum var skipt niður á nemendur þar sem hver og einn lærði og flutti eitt erindi.

Nemendur í 9. og 10. bekk söfnuðu saman uppáhaldsorðum allra í skólanum og unnu verkefni út frá því.

Skemmtileg verkefni á öllum stigum og greinilega mikil hugmyndaauðgi meðal bæði nemenda og starfsmanna. Höldum áfram að standa vörð um fallega tungumálið okkar!

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR