22. desember, 2025

Jólin jólin

Landsmenn hafa nóg að gera vikurnar fyrir jól og eru nemendur Laugalandsskóla ekki þar undanskildir. Eitt stærsta verkefnið sem liggur fyrir þeim er að setja upp jólasýningu. Nemendur hafa unnið hörðum höndum að þessu verkefni undanfarnar vikur og miðvikudaginn 17. Generalprufan var tekin klukkan 10:00 um morguninn. Eftir generalprufu var komið að möndlu(grjóna)grautnum þar sem einn nemandi í hverjum í bekk fékk möndlu með tilheyrandi möndlugjöf. Síðan klukkan 15:00 var jólasýningin sjálf. Tókst hún afar vel og stóðu nemendur sig frábærlega, jafnt á sviði og á bak við tjöldin. Fleiri myndir frá jólasýningu má sjá hér.

Á fimmtudeginum var jólamatur. Nemendur og starfsfólk mættu í sínu fínasta pússi og fengu dýrindis mat sem var snilldarlega framreiddur af þeim Mikeal og Karen í eldhúsinu. Nemendur 10. bekkjar voru þeim innan handar og aðstoðuðu við að leggja á borð og bera fram matinn.

Á föstudeginum var stuttur dagur. Nemendur áttu notalega samverustund í umsjónarstofu með sínum umsjónarkennara og var dagskráin mismunandi hjá hverjum bekk fyrir sig. Margir fóru í pakkaleik, sumir hlustuðu á jólasögu en allir áttu fallega stund saman áður en farið var í langþráð jólafrí.

Starfsfólk Laugalandsskóla vill óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ár. Við þökkum fyrir góðar stundir á árinu sem er að líða og hlökkum til að eiga fleiri á komandi ári. Skólahald hefst aftur á nýju ári mánudaginn 5. janúar. Sjáumst þá, hress!

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR