27. janúar, 2026

Þorrablót 2026

Þorrablót Laugalandsskóla var haldið á bóndadaginn, föstudaginn 23. janúar. Að venju var mikil dagskrá og vegleg veisla.

Víkingur Almar og Viktor Logi í 10. bekk voru kynnar viðburðsins og stóðu sig með prýði. Fyrsta mál á dagskrá þegar nemendur höfðu safnast saman í matsalnum var að syngja saman Krummi svaf í klettagjá. Að því loknu var 6. bekkur með kynningu á þorramat.

Þá kom loksins að því að borða. Hefð er fyrir að dregið sé í matarröð og sáu Víkingur og Viktor um það. Í ár var það 1. bekkur sem var svo heppinn vera fyrstur í hlaðborðið. Mikael og Karen göldruðu fram lygilega góðan þorramat og nutu aðstoðar 10. bekkjar, sem lögðu einnig á borð.

Þegar allir höfðu farið eina ferð var 7. bekkur með kynningu um Kristján fjallaskáld og fluttu kynningu um Þorraþrælinn.

Að því loknu var komið að því að veita verðlaun fyrir vísubotna. Það var ekki hlaupið að því að velja bestu botnana enda margir þrususterkir sendir inn af öllum stigum.

Á yngsta stigi þóttu þessir þrír efnilegir:

Það var síðan hún Bjartey í 3. bekk sem þótti vera með besta vísubotninn á yngsta stigi. Hann hljóðaði svo:

Í sveitum finnur hlöðu‘ og fjós
fjárhús upp við veginn.
Sé ég lítið, lítið ljós
mikið er ég fegin.

                               Bjartey 3. bekk

Á miðstigi komu þessir þrír botnar sterklega til greina sem besti botn stigsins:

Sú sem stóð uppi sem sigurvegari á miðstigi var síðan hún Viktoría Rós í 7. bekk. Hennar botn var svona:

Grimmur bítur Kári kinn
krakkar skjálfa‘ á beinum.
Ullarsokkinn hvergi finn
ég fer þá út á einum.

                                               Viktoría Rós 7. bekk

Ævar Leví, eldri bróðir Viktoríu, tók við verðlaununum fyrir hennar hönd.

Samkeppnin var einnig hörð á elsta stigi, en þar þóttu þessir þrír botnar ansi efnilegir:

Það var síðan hann Helgi Björn í 8. bekk sem hreppti verðlaunin fyrir besta botninn, en hans vísubotn var svona:

Víst skal fylgja vetrartíð
vindur, kuldi‘ og bleyta.
Skemmtileg er sumartíð
en sumu vil ég breyta.

                                               Helgi Björn 8. bekk

Margir nemendur kappkosta við að semja skemmtilegan og fyndinn botn, og eru veitt sérstök verðlaun fyrir þann botn sem þykir fyndnastur. Í ár var það Aron Einar í 7. bekk sem þótti vera með fyndnasta botninn.

Að semja vísu varla get
væli bara‘ og blóta.
Í fjárans ljóðið gef ég fret
fer svo heim að hrjóta.

                                               Aron Einar 7. bekk

Að lokum eru veitt verðlaun fyrir besta botninn yfir allan skólann þar sem nemandi úr hvaða bekk sem er getur unnið. Sá sem þótti hafa samið besta vísubotn ársins var hann Víkingur Almar í 10. bekk, en svona hljóðaði hans botn:

Hlaðborð súrt er fögur sjón
sleikja gestir út um.
„Viðbjóðslegt!“ þá vælir Jón
vanþækklætistárum.

                                               Víkingur Almar 10. bekk

Starfsfólk spreytir sig líka á vísubotnum og er með sérstaka keppni sem heitir Hákarlinn.

Sá sem fékk Hákarlinn í ár var hann Bæring Jón, og svona var hans botn:

Brennivín og bjór ég drakk,

blótið allt í móðu.

Ældi öllu, lifrin sprakk

. . . annars allt í góðu.

                               Bæring

Dagskránni var svo lokið með því að enda á samsöng þar sem allir sungu saman Þorraþrælinn.

Þorrinn er þar með formlega genginn í garð og þökkum við nemendum og starfsfólki kærlega fyrir frábæran dag. Fleiri myndir af deginum má nálgast hér.

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR