2. september, 2025

Veiðivatnaferð 9. bekkjar

Þann 28. ágúst fór 9. bekkur í Veiðivötn ásamt Bæring kennara og Bjarka umsjónarkennara. Sverrir skólabílstjóri keyrði hópinn eins og hann hefur gert til fjölda ára.

Bidda tók á móti hópnum eins og vant er og sýndi nemendum svæðið og sagði þeim sögur úr vötnunum. Svo var haldið til veiða. Þrátt fyrir úrvals veður og fagmannleg kastbrögð þá gekk ansi illa að draga nokkuð á land annað en hraunmola. Þó náði Bæring kennari í einn í Andapollinum og þar við sat.

Sú breyting varð á ferðinni að þessu sinni að nemendum bauðst að gista eina nótt í vötnunum í boði Veiðifélagsins. Það var dýrmæt samvera sem nýtt var í allskonar spil og spjall fram eftir kvöldi sem endaði svo með hrotukór fram undir morguninn. Gistingin var frábært tækifæri til að auka samheldni í hópnum.

Strákarnir voru komnir í svo mikinn veiðigír að þeir vöknuðu snemma daginn eftir til að ná smá veiði fyrir heimferð. Það var einmitt þá sem eini fiskur ferðarinnar veiddist. Morgunstund gefur sannarlega gull í mund.

Veiðivatnaferð 9. bekkjar er fastur liður í skólastarfi Laugalandsskóla en um leið stór þáttur í menningu sveitarinnar. Í þessari ferð fá nemendur að fræðast um og kynnast betur landinu okkar sem og spreyta sig á veiðimennsku og fiskverkun. Með því fæst mikil fræðsla og reynsla sem nýtist vonandi í framtíðinni.

Fleiri myndir frá ferðinni má skoða hér.

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR