9. janúar, 2026

Áfram með smjörið

Þá er fyrstu skólaviku nýs árs að ljúka. Flest eru sammála um að fyrstu skrefin eftir jólafríið eru þung en það er alltaf gott að komast aftur í rútínu. Nemendur og starfsfólk eru komin aftur á fullt í námi og vinnu og skólastarfið að færast í eðlilegt horf. Sumir hafa mögulega sett sér metnaðarfull áramótaheit fyrir árið og verður gaman að sjá hvernig fram vindur.

Það helsta sem liggur fyrir í janúar, fyrir utan að venjast því að þurfa að stilla vekjaraklukku aftur, er handbolti og þorrablót.

Ísland tekur þátt í EM í karla handbolta í ár og af því tilefni verður nemendaráð skólans með handboltakvöld fyrir unglingastig. Verður það 20. janúar þegar Ísland keppir á móti Ungverjalandi. Nánari upplýsingar koma síðar.

Eins og hefð er fyrir þá er haldið þorrablót í skólanum á bóndadegi, 23. janúar. Þá býður mötuneytið upp á klassískt þorrablótshlaðborð. Í aðdraganda þess fá nemendur fyrri parta af vísum sem þeir eiga að botna. Á þorrablótinu verður síðan kynnt hverjir sömdu bestu botnana. Veitt eru verðlaun í eftirfarandi flokkum:

  • Besti botninn í 1. – 4. bekk.
  • Besti botninn í 5. – 7. bekk.
  • Besti botninn í 8. – 10. bekk.
  • Fyndnasti botninn (allir).
  • Þorraþrællinn (allir).
  • Besti botninn hjá starfsmönnum.

Nú er upplagt að rifja upp ljóðstafi, rím og hrynjanda með börnunum en undanfarin ár hefur samkeppnin verið ansi hörð enda mikið af hagmæltum nemendum í skólanum. Einnig minnum við á að á bóndadaginn eru nemendur hvattir til að mæta í lopapeysu eða öðrum þjóðlegum fötum.

Við endum þessa frétt á Þorraþræli síðasta árs, en það var hún Weronika, sem útskrifaðist síðasta vor, sem samdi hann.

Selshreyfa og súran koll
sviðakjamma heita.
Ét svo þar til ég fæ hroll
ábótinni neita.

Mynd frá þorrahlaðborði síðasta árs.

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR