Jafnréttisáætlun Laugalandsskóla í Holtum

Inngangur

Í 18. gr. laga nr.10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ber öllum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri að setja sér jafnréttisáætlun.  Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.  Jafnréttisáætlun Rangárþings ytra byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008  Hún tekur til stjórnkerfis og starfsmanna sveitarfélagsins annars vegar og hins vegar til starfsemi og þjónustu sem stofnanir sveitafélagsins veita íbúum.

Jafnréttisáætlun Rangárþings ytra

Í Stjórnarskrá lýðveldisins stendur:
,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir:
,,Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.“

Í aðalnámsskrá Grunnskóla 2011 kemur fram að  “í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru skýr ákvæði um að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.  Áherslu ber að leggja á að drengir og stúlkur eigi sem víðtækasta og jafnasta möguleika.  Hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi hvors kynsins.  Mikilvægt er að í öllu skólastarfi, jafnt í kennslustundum sem og í öllum samskiptum, séu þessi ákvæði jafnréttislaga höfð að leiðarljósi.  Jafnframt er mikilvægt að draga fram að ýmsir búa við margþætta mismunun þegar fleiri slíkir þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta.”

Í Laugalandsskóla er lagt upp með að samskipti einstaklinga grundvallist á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi og að allir fái kennslu og þjónustu við hæfi.

Jafnréttisáætlun Laugalandsskóla nær annars vegar til nemenda og hins vegar til starfsfólks.

Ábyrgð

Skólastjóri ber ábyrgð á jafnréttisáætlun skólans en hann skipar jafnréttisnefnd sem sér um endurskoðun og viðhald jafnréttisáætlunarinnar.  Aðgerðaráætlun hefur verið gerð þar sem fram kemur hvernig viðhalda skuli jafnréttisáætluninni, hverjir beri ábyrgð á einstökum þáttum hennar og hvenær hver þáttur skuli unninn.

Markmið

Markmið jafnréttisáætlunarinnar er að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla og að jöfnum möguleikum kynjanna til að nýta sér það lagalega jafnrétti sem er til staðar.

Starfsmenn

Í stjórnarskrá lýðveldisins kemur fram að “allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.  Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”

Virðing skal borin fyrir ólíkum skoðunum fólks innan stofnunarinnar og möguleika þess á að koma þeim á framfæri.

Innan Laugalandsskóla er stuðlað að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.   Áhersla er lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Stjórnendur skólans tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka færni fólks í starfi.

Tryggt er að konur og karlar njóta sömu kjara innan stofnunarinnar.

Starfsfólki, bæði konum og körlum er gefinn kostur á að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.  Reynt er eftir besta megni að koma til móts við fjölskylduþarfir allra starfsmanna skólans.

Stefna og viðbragðsáætlun kynbundins ofbeldis, kynbundinnar áreitni og kynferðislegar áreitni

Þar kemur m.a. fram að markmið skólans sé að gæta þess að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni kynferðusleg árteitni og einelti þrífist ekki í skólanum sem og að taka strax á eineltismálum ef þau koma upp.

Nemendur

Í Laugalandsskóla er lögð áhersla á að nemendur hljóti fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. er lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, s.s. í fjölskyldu- og atvinnulífi.

Flestar bækur sem skólinn notar koma frá námsgagnastofnun, en þar er kynjasjónarmið haft í fyrirrúmi.

Sérstök eineltisáætlun er til fyrir nemendur skólans og birtist hún í Skólalyklinum, bls. 32, sem fer inn á heimili allra nemenda skólans.  Hann má einnig sjá á heimasíðuskólans.

Skólalykill-2020-2021

Einelti kemur öllum við. Það er samfélagslegt vandamál þar sem allir eru ábyrgir. Þess vegna er það siðferðisleg skylda allra að láta vita ef þeir verða varir við að einhver sé lagður í einelti.

Framkvæmd

Í skólanum er haft að leiðarljósi að bæði kynin taki sem jafnastan þátt í öllu skólastarfi.  Einnig er þess gætt í daglegri umgengni við nemendur að þeim sé ekki mismunað á nokkurn hátt, s.s. vegna kynferðis, fötlunar eða litarháttar.

Sérstök áhersla er lögð á  að nemendur þekki og tjái tilfinningar sínar.  Að þeir læri að bera virðingu hvert fyrir öðru og að jafnréttis sé alltaf gætt í öllum samskiptum.

Laugalandsskóli leggur sérstaka áherslu á eftirfarandi þætti sem eru birtir í skólanámsskrá skólans:

Laugalandsskóli er ART vottaður sem þýðir að allir nemendur skólans eru þjálfaðir sérstaklega í félagsfærni, reiðistjórnun og siðferði.

Sjálfsvitund. Til að öðlast raunsæja og heilbrigða sjálfsmynd þurfa nemendur að þekkja eigin tilfinningar, þekkja sínar sterku og veiku hliðar og hafa trú á eigin getu og hæfni til að takast á við fjölbreytileg viðfangsefni daglegs lífs. Í þessu sambandi er mikilvægt að hlúð sé að nemendum í samræmi við stöðu þeirra og þarfir og stuðlað að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Starfshættir Laugalandsskóla mótast því af umburðarlyndi og kærleika með áherslu á jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. (Sbr. 2. gr. laga um grunnskóla).

Siðgæðisvitund byggist á því að nemendur efli siðferðisþroska sinn og hæfni til að setja sig í spor annarra. Nemendur þurfa að læra að taka afstöðu til siðferðilegra álitamála og virða rétt hvers og eins til að tjá skoðanir sínar. Þeir þurfa einnig að læra að gera greinarmun á jákvæðu og neikvæðu hegðunarmynstri í samskiptum og bera virðingu fyrir öðrum – hvort heldur bekkjarsystkinum, skólafélögum, starfsfólki skólans eða öðru fólki.

Félagsvitund felur í sér hæfni til að skynja, skilja og bregðast við tilfinningum annarra og hvað það þýðir að búa í samfélagi með öðrum.

Borgaravitund samanstendur af viðhorfum og hæfni fólks til að taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi í samræmi við réttindi sín og skyldur.

Félagsfærni vísar til þess að geta átt jákvæð og árangursrík samskipti. Heilbrigð sjálfsmynd er meginforsenda félagsfærni. Líklegra er að börn með góða félagsfærni eigi frumkvæði að samskiptum, viðhaldi þeim og lagi sig að breyttum aðstæðum. Þroskuð félagsfærni ræður miklu um lífshamingju og lífsfyllingu hvers einstaklings.

Jákvæð og uppbyggileg samskipti í öllu skólastarfi þar sem ríkir gagnkvæm virðing og tillitssemi skipta auðvitað mestu máli varðandi alla þessa þætti. En einnig er unnið sérstaklega með þá í gegnum svokallaða ART-færniþjálfun sem miðar að því að efla félagsfærni nemenda, kenna þeim sjálfsstjórn (reiðistjórnun) og þjálfa þá í siðferðilegri rökhugsun og rökræðum.  Rökhugsun og gagnrýnin hugsun er einnig þjálfuð í gegnum ARTið þar sem nemendur fá tækifæri til að rökræða og rökstyðja mál sitt í ræðu og riti.  Sérstök áhersla er lögð á að allir hafi sama rétt til að tjá sig og og koma sínum skoðunum á framfæri. Jafnframt er stuðst við aðrar greinar í þessu tilliti s.s. íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og jafnvel stærðfræði.

Áætlun þessi er yfirfarin í byrjun árs 2019 og skal endurskoðuð 2022.

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR