Laugalandsskóli sækir ráðgjöf og greiningar til skólaþjónustu Rangarvalla- og Vestur- Skaftafellssýslu sem staðsett er að Suðurlandsvegi 1-3 á Hellu. Boðið er upp á sálfræðiþjónustu, þjónustu kennsluráðgjafa, þjónustu talmeinafræðings og iðjuþjálfa eftir beiðni frá kennara og foreldra. Deildarstjóri stoðþjónustu er tengiliður milli skóla og Skólaþjónustunnar og fara því allar greiningar og þjónusta af þeirra hendi í gegnum hann. Deildarstjóri sér um að boða nemendur, foreldra og kennara á fundi þeirra. Þessir aðilar sinna greiningu og ráðgjöf til starfsmanna og foreldra. Skólaþjónustan býður upp á úrval námskeiða fyrir starfsmenn skólanna og leitar eftir hugmyndum frá skólunum í þeim efnum. Að auki er veitt ráðgjöf til sveitarstjórna og fræðslunefnda um ýmislegt sem lýtur að skólamálum. Sérfræðiþjónustan kemur að endurmenntun og fræðslu fyrir starfsfólk skólanna, bæði í formi styttri fræðslufunda og einnig umfangsmeiri námskeiða.
Verksvið skólaþjónustunnar er í samræmi við lög um grunn- og leikskóla og reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla auk samþykkta Byggðasamlags um félags- og skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.
Sjá nánar á www.felagsogskolamal.is
Nemendaverndarráð er starfrækt við skólann sbr. reglugerð nr. 388/1996. Í ráðinu sitja skólastjóri, Deildarstjóri stoðþjónustu, fulltrúi heilsugæslu skólahjúkrunarfræðingur, fulltrúi skólaþjónustu og fulltrúi félagsþjónustu. Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði varðandi einstaka nemendur sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Skólastjóri er formaður nemendaverndarráðs. Fundað er einu sinni í mánuði.
Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk heilsuverndar skólabarna vinnur í náinni samvinnu við foreldra, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þjónusta heilsuverndar skólabarna er skráð í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.
Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu Embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna