Í starfi okkar leggjum við til grundvallar uppeldisstefnu sem nefnist Jákvæður agi (Positive Discipline) og er náskyld Uppbyggingarstefnunni sem margir skólar hér á landi hafa stuðst við. Stefnan byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela það í sér að horft er á orsakir hegðunar fremur en að reyna að breyta hegðuninni með umbun og refsingu eins og lengi hefur tíðkast með ýmsum atferlismótunarkerfum sem hafa verið ráðandi í skólakerfinu um langan tíma.
Jákvæður agi gengur út á það að móta skólabrag sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu. sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu. Við leitumst við að fá nemendur til að tileinka sér ákveðin viðhorf og hæfni og nýtum bekkjarfundi til kennslu og þjálfunar, en reglulegir bekkjarfundir eru einmitt grundvallaratriði í hugmyndafræðinni.
Stefnunni fylgja einnig fleiri atriði eins og að starfsmenn læri að skilja ástæður „rangrar“ hegðunar nemenda, að samskipti þeirra við nemendur séu hvetjandi, að byggt sé upp traust og gott samband milli heimila og skóla, að starfsmenn vinni saman í teymum og hjálpist að við að finna lausnir á vandamálum sem upp koma, og síðast en ekki síst gerir hugmyndafræðin ráð fyrir að kennarar tileinki sér fjölmargar hagnýtar aðferðir við bekkjarstjórnun.
Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni
Meginreglur Jákvæðs aga hjálpa til við að byggja samband væntumþykju og virðingar og þær auðvelda að finna lausnir til frambúðar.
Jákvæður agi byggir á kennslu, skilningi, hvatningu og samskiptum.
Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu. Jákvæður agi byggir á því að börn þroski og efli með sér færni í að finna lausnir og setja sér mörk í samvinnu við fullorðna.
Laugalandsskóli er að innleiða uppeldisstefnu er nefnist Jákvæður agi.. Innleiðingarferlið tekur rúmlega 2 ár og er áætlað að ferlið verði u.þ.b. hálfnað við lok skólaárs 2024. Við vonumst til að breytingar ættu að verða sýnilegar innan eins árs. Reynsla okkar er að það taki 2-3 ár fyrir ávinninginn að koma fyrir alvöru í ljós, að jákvæðar breytingar verði á skólabragnum og að þær nái að festast í sessi.
Innleiðingar teymið okkar skipa:
Erla Berglind Sigurðardóttir
Klara Valgerður Ómarsdóttir
Sigríður Ómarsdóttir
Við munum nú í vetur öðru hvoru setja inn örfréttir á heimasíðuna sem sýna foreldrum/forráðamönnum hvernig innleiðingarferlið gengur fyrir sig.
Jákvæður agi – Punktar fyrir foreldra (pdf)
Jákvæður agi – Fjölskyldufundir