22. september 2023

Kynfræðsla á unglingastigi

Síðustu vikur hefur mikil upplýsingaóreiða átt sér stað varðandi hinseginmálefni, sér í lagi varðandi trans einstaklinga sem og kynfræðslu almennt í grunnskólum. Bæði í samfélaginu, sem og á samfélagsmiðlum.

Þessi upplýsingaóreiða hefur sannarlega varpað skýru ljósi á mikilvægi þess að þessi málefni séu tekin föstum tökum innan veggja skólans.

Kynfræðslan hjá okkur hefur ávallt miðast við að nálgast öll málefni með skilning, virðingu og umhyggju að leiðarljósi. Hún miðast við að fræða nemendur um málefni sem standa þeim nærri, svara spurningum sem við vitum að kalla á svör en stundum er erfitt að opna umræðuna fyrir. Eins reynum við að haga tímunum okkar á þann hátt að hver og einn finni fyrir öryggi til að koma fram og tjá sig frjálslega án þess að þeim mæti dómharka eða skilningsleysi.

En heimili og skóli eru sannarlega ekki einu staðirnir sem börnin okkar sækja fræðslu og þekkingu. Samfélagsmiðlar leika þar sífellt stærra hlutverk. Þar má sannarlega finna margt gott og fróðlegt, en því miður þá er þar einnig að finna fáfræði, fordóma og hatursorðræðu sem gjarnan er dulin þeim sem ekki hafa þekkingu til að greiða úr upplýsingaóreiðunni. Okkar markmið er því að tryggja að frá okkur útskrifast börn sem þekkja til og virða mannréttindi og geti staðið vörð um sín réttindi sem og annarra. Þegar kemur að hatursorðræðu þá trompar tjáningarfrelsi eins ekki mannréttindi annarra – aðgát skal höfð í nærveru sálar. Formaður Kennarasamband Íslands, Magnús Þór Jónsson, kemur vel inn á þennan punkt í þessari grein: https://www.visir.is/g/20232463922d/listin-ad-segja…og-thegja

Kær kveðja,
Steinunn og Bæring

Laugalandsskóli

Samvinna, traust og vellíðan í leik og starfi

SKÓLAREGLUR